Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 677/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 677/2021

Fimmtudaginn 17. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. desember 2021, um að hún uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu desemberuppbótar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun þar til í ágúst 2021, en þá hafði hún fullnýtt 30 mánaða bótatímabil sitt. Með erindi, dags. 10. desember 2021, óskaði kærandi eftir upplýsingum um greiðslu desemberuppbótar fyrir árið 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. desember 2021, var kæranda tilkynnt að hún uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu desemberuppbótar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. desember 2021. Með bréfi, dags. 21. desember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 1. febrúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. febrúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur þar til í ágúst 2021 en ekki fengið greidda neina desemberuppbót. Allir atvinnurekendur myndu greiða eitthvað fyrir alla þessa mánuði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 20. desember 2018. Með erindi, dags. 6. febrúar 2019, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt. Í ágúst 2021 hafi kærandi fullnýtt 30 mánaða bótatímabil sitt. Því hafi ekki komið til frekari greiðslna til kæranda frá Vinnumálastofnun. Þann 14. desember 2021 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun tölvupóst og óskað upplýsinga vegna desemberuppbótar 2021. Erindi kæranda hafi verið svarað þann 16. desember 2021 og henni tjáð að hún uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu desemberuppbótar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laganna sé ráðherra fengin heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Þann 7. desember 2021 hafi tekið gildi reglugerð nr. 1407/2021 um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur, sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að sá sem hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2021 og verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu 2021 eigi rétt á desemberuppbót að fjárhæð 92.229 kr., enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma. Þá sé í 2. til 4. gr. reglugerðarinnar kveðið á um hlutfallslegan rétt atvinnuleitanda til desemberuppbótar sem sé þó ávallt háður því skilyrði að viðkomandi atvinnuleitandi hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2021.

Eins og áður hafi verið rakið hafi kærandi fullnýtt bótatímabil sitt í ágúst 2021. Því sé ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslu desemberuppbótar samkvæmt reglugerð nr. 1407/2021, enda sé hún hvorki tryggð á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar né hafi hún staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2021 líkt og skýrlega sé áskilið í umræddri reglugerð.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu desemberuppbótar á grundvelli reglugerðar nr. 1407/2021.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu desemberuppbótar fyrir árið 2021.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laganna er að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum.

Í 3. mgr. 33. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006 er ráðherra fengin heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Þann 7. desember 2021 var á grundvelli þeirrar heimildar sett reglugerð nr. 1407/2021 um desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur. Þar segir í 2. gr. að sá sem hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2021 og verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í samtals tíu mánuði eða lengur á árinu 2021 eigi rétt á desemberuppbót að fjárhæð 92.229 kr., enda hafi viðkomandi verið að fullu tryggður samkvæmt III. eða IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar á umræddum tíma. Þá er í 2. til 4. gr. reglugerðarinnar kveðið á um hlutfallslegan rétt atvinnuleitanda til desemberuppbótar sem er þó ávallt háður því skilyrði að viðkomandi atvinnuleitandi hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2021.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur þar til í ágúst 2021 en þá hafði hún fullnýtt bótatímabil sitt. Í framangreindri reglugerð er skýrt kveðið á um að desemberuppbót greiðist eingöngu til þeirra sem hafi staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2021. Þar sem kærandi hafði fullnýtt bótatímabil sitt í ágúst 2021 staðfesti hún ekki atvinnuleit sína á því tímabili. Að því virtu átti hún ekki rétt á greiðslu desemberuppbótar á grundvelli reglugerðar nr. 1407/2021 og er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. desember 2021, um að A, eigi ekki rétt á greiðslu desemberuppbótar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum